26. okt. 2007

Gunnar Kr. | 10.-11. nóv.

Laugardaginn 10. nóvember kl. 14:00 opnar Gunnar Kr. Jónasson myndlistarsýninguna Svart í Populus tremula. Á sýningunni verða splunkunýir skúlptúrar eftir Gunnar Kr. sem vakið hefur verðskuldaða athygli fyrir þrívíða myndlist, auk málverka og teikninga.
Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 11. 11. kl. 14:00 - 17:00.

Aðeins þessi eina helgi.

Saga Capital styrkir Populus tremula


Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur ákveðið að gerast bakhjarl Menningarsmiðjunnar Populus tremula til þriggja ára og stuðla þannig að eflingu menningar og lista í umhverfi sínu. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital og Arnar Tryggvason, félagi í Populus tremula skrifuðu undir samning þess efnis í gær.
Populus tremula starfar í kjallara Listasafns Akureyrar í Listagilinu. Þar er félagsmönnum meðal annars boðið upp á vinnustofur og aðstöðu til listsköpunar á sviði myndlistar, tónlistar og bókmennta. Populus tremula stendur einnig fyrir ýmis konar menningarsamkomum og listviðburðum sem allir eru opnir almenningi án endurgjalds. Markmið Populus tremula er að glæða menningarlíf í Listagili og laða nýjar kynslóðir til menningarstarfs þar.
Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki sem veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fagfjárfesta. Bankinn tók formlega til starfa í maí á þessu ári og er aðili að öllum norrænu OMX kauphöllunum. Höfuðstöðvar Saga Capital eru á Akureyri en bankinn er einnig með skrifstofur í Reykjavík.
Alls voru 42 menningarviðburðir haldnir á vegum Populus tremula á síðasta starfsári. Næsta uppákoma verður þann 10. nóvember, en þá opnar Gunnar Kr. Jóhansson myndlistasýningu og sýnir tréskúlptúra. Nóvembermánuður verður að öðru leyti að mestu helgaður bókmenntum með ljóðadagskrá og bókmenntakvöldum.


Nánari upplýsingar veita:
Sigurður Heiðar Jónsson hjá Populus tremula í síma: 863 1225 og
Brynhildur Ólafsdóttir hjá Saga Capital í síma: 856 2607

Mynd:
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital (t.v.), og Arnar Tryggvason, félagi í Populus tremula (t.h.), skrifa undir samstarfssamninginn.

22. okt. 2007

Bókmenntamánuðurinn nóvember

Nóvembermánuður 2007 verður bókmenntamánuður í Populus tremula. Fyrirhugaðir eru þrír bókmenntaviðburðir í mánuðinum og rétt að geta þeirra strax – viðburðirnir verða þó að sjálfsögðu allir auglýstir sérstaklega þegar nær dregur.

Laugardagskvöldið 17. nóvember verður dagskrá með ljóðum Sigurðar Heiðars Jónssonar, alias Rúdólf Rósenberg.
Sigurður hefur ekki haft hátt um kveðskap sinn og ort undir dulnefni en sviptir nú hulunni af Rúdólfi og fær góðvini til liðs við sig. Af þessu tilefni mun Populus tremula gefa út bók með ljóðum Sigurðar.

Laugardagskvöldið 24. nóvember verður bókmenntadagskrá um skáldið frá Fagraskógi í umsjá Hjálmars Stefáns Brynjólfssonar.
Hjálmar hefur stúderað Davíð undanfarin ár og mun gera skáldinu skil, áhrifum og stöðu í íslenskum bókmenntum.

Föstudagskvöldið 30. nóvember verður svo bókmenntakvöld sem helgað verður Beat-skáldunum amerísku. Það er Guðmundur Egill Erlendsson sem ber hitann og þungann af þeirri dagskrá, sem studd verður tónlist og öðrum skemmtilegheitum.

---

Nú þegar hefur verið haldið eitt bókmenntakvöld á starfsárinu þegar Gunnar M. G. kynnti ljóð sín á dögunum og PT gaf út bók hans, Skimað út.
Einnig er komin út bókin Drums eftir Baldvin Ringsted og í vetur eru amk 4 bækur til viðbótar á döfinni.

15. okt. 2007

Skrokkabandið | 20. okt.

Laugardaginn 20. október kl. 22:00 heldur Skrokkabandið tónleika í Populus tremula.

Þar munu Kristján Pétur og Haraldur Davíðsson, ásamt flinkum aðstoðarmönnum, endurtaka spilverkið frá því í Deiglunni um verslunarmannahelgina – þá komu færri en vildu. Húsið opnað kl. 21:30. Mætum öll, enda aðgangur ókeypis.
Malpokar hið besta mál.

Baldvin Ringsted | 20. okt.
Laugardaginn 20. október kl. 14:00 opnar Baldvin Ringsted myndlistarsýninguna Xenochrony í Populus tremula.

Í innsetningum sínum vinnur Baldvin út frá reynslu sinni sem tónlistarmaður og kannar tengslin milli tilrauna í tónlist, menningarsögu og iðnþróunar. Í tilefni af sýningunni gefur Populus tremula út bókverkið Drums eftir Baldvin.

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 21. okt. kl. 14:00 - 17:00. Aðeins þessi eina helgi.

5. okt. 2007

gunnar m. g. | 11. otk.


Fimmtudaginn 11. október kl. 21:00 verður verður haldið bókmenntakvöld í Populus tremula. Þar mun Gunnar M. G . kynna og flytja eigin ljóð. Gunnar er í flokki yngstu skálda, aðeins 23ja ára, og kynnir hér sína fyrstu ljóðabók, Skimað út, sem Populus tremula gefur út þetta sama kvöld. Bókin veður fáanleg á staðnum.

Aðgangur ókeypis.