22. okt. 2007

Bókmenntamánuðurinn nóvember

Nóvembermánuður 2007 verður bókmenntamánuður í Populus tremula. Fyrirhugaðir eru þrír bókmenntaviðburðir í mánuðinum og rétt að geta þeirra strax – viðburðirnir verða þó að sjálfsögðu allir auglýstir sérstaklega þegar nær dregur.

Laugardagskvöldið 17. nóvember verður dagskrá með ljóðum Sigurðar Heiðars Jónssonar, alias Rúdólf Rósenberg.
Sigurður hefur ekki haft hátt um kveðskap sinn og ort undir dulnefni en sviptir nú hulunni af Rúdólfi og fær góðvini til liðs við sig. Af þessu tilefni mun Populus tremula gefa út bók með ljóðum Sigurðar.

Laugardagskvöldið 24. nóvember verður bókmenntadagskrá um skáldið frá Fagraskógi í umsjá Hjálmars Stefáns Brynjólfssonar.
Hjálmar hefur stúderað Davíð undanfarin ár og mun gera skáldinu skil, áhrifum og stöðu í íslenskum bókmenntum.

Föstudagskvöldið 30. nóvember verður svo bókmenntakvöld sem helgað verður Beat-skáldunum amerísku. Það er Guðmundur Egill Erlendsson sem ber hitann og þungann af þeirri dagskrá, sem studd verður tónlist og öðrum skemmtilegheitum.

---

Nú þegar hefur verið haldið eitt bókmenntakvöld á starfsárinu þegar Gunnar M. G. kynnti ljóð sín á dögunum og PT gaf út bók hans, Skimað út.
Einnig er komin út bókin Drums eftir Baldvin Ringsted og í vetur eru amk 4 bækur til viðbótar á döfinni.