26. okt. 2007

Saga Capital styrkir Populus tremula


Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur ákveðið að gerast bakhjarl Menningarsmiðjunnar Populus tremula til þriggja ára og stuðla þannig að eflingu menningar og lista í umhverfi sínu. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital og Arnar Tryggvason, félagi í Populus tremula skrifuðu undir samning þess efnis í gær.
Populus tremula starfar í kjallara Listasafns Akureyrar í Listagilinu. Þar er félagsmönnum meðal annars boðið upp á vinnustofur og aðstöðu til listsköpunar á sviði myndlistar, tónlistar og bókmennta. Populus tremula stendur einnig fyrir ýmis konar menningarsamkomum og listviðburðum sem allir eru opnir almenningi án endurgjalds. Markmið Populus tremula er að glæða menningarlíf í Listagili og laða nýjar kynslóðir til menningarstarfs þar.
Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki sem veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fagfjárfesta. Bankinn tók formlega til starfa í maí á þessu ári og er aðili að öllum norrænu OMX kauphöllunum. Höfuðstöðvar Saga Capital eru á Akureyri en bankinn er einnig með skrifstofur í Reykjavík.
Alls voru 42 menningarviðburðir haldnir á vegum Populus tremula á síðasta starfsári. Næsta uppákoma verður þann 10. nóvember, en þá opnar Gunnar Kr. Jóhansson myndlistasýningu og sýnir tréskúlptúra. Nóvembermánuður verður að öðru leyti að mestu helgaður bókmenntum með ljóðadagskrá og bókmenntakvöldum.


Nánari upplýsingar veita:
Sigurður Heiðar Jónsson hjá Populus tremula í síma: 863 1225 og
Brynhildur Ólafsdóttir hjá Saga Capital í síma: 856 2607

Mynd:
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital (t.v.), og Arnar Tryggvason, félagi í Populus tremula (t.h.), skrifa undir samstarfssamninginn.