28. maí 2007

TAKK AÐ SINNI


Þriðja starfsári Populus tremula er lokið. Á starfsárinu stóð félagið fyrir hátt á fjórða tug menningarviðburða og gaf út 5 bækur. Félagarnir í Populus færa sínar bestu þakkir öllum þeim listamönnum sem komið hafa fram, sýnt eða gefið út verk sín sem og öllum þeim fjölmörgu gestum sem sóttu viðburði félagsins. Og ekki síst styrktaraðilum félagsins.
Populus boðar kröftuga endurkomu á Akureyrarvöku í lok ágúst.
Takk fyrir veturinn – njótið sumarsins.

21. maí 2007

JÖKULHLAUP | 26.-28. maí

sett hefur verið upp vefsíða um sýninguna og þá félaga á slóðinni: http://www.fortin-malinowski.blogspot.com/




Laugardaginn 26. maí kl. 14:00 opna kanadísku myndlistarmennirnir Robert Malinowski og Paul Fortin myndlistarsýninguna Jökulhlaup í Populus tremula. Á sýningunni, sem markar lok starfsársins hjá Populus tremula, verða teikningar og málverk sem listamennirnir hafa ýmist unnið hvor í sínu lagi eða saman. Robert og Paul dvelja í gestavinnustofu Gilfélagsins um þessar mundir.

Sýningin verður einnig opin milli kl. 14:00 og 17:00 á hvítasunnudag og annan í hvítasunnu.

13. maí 2007

ÓÐUR TIL ÞAGNAR | 19.-20. maí




Laugardaginn 19. maí kl. 14:00 opnar Kristján Pétur Sigurðsson sýninguna Óður til þagnar í Populus tremula. Sýningin er innsetning með lágmyndum úr tré. Gamli rokkarinn segir að fjölmargir söngvarar geti rennt sér upp á hið háa C en kunni ekki endilega það sem mikilvægara er – að þegja. Nú er þögnin lofuð.

Einnig opið sunnudaginn 20. maí kl. 14:00-17:00 | Aðeins þessi eina helgi

6. maí 2007

ÁSTARÖRLAGANNA ÞJÁNINGARFULLA SÆLUVÍMA | 12.5.




Laugardaginn 12. maí kl. 14:00 opnar Jón Garðar Henrysson myndlistarsýninguna Ástarörlaganna þjáningarfulla sæluvíma í Populus tremula.

Daglega birtast okkur alls kyns frummyndir lífsgleðinnar og þá reynir á þolrifin að þreyta lífsgönguna. En sem betur fer eigum við þolplast og önnur hjálparmeðul til þess að vefja okkur gegn vindum og votviðri lífsins. Línuteikningar og sjálfshjálparlesefni um kærleikans villigötur og breiðstræti mynda síðan kjarna sýningarinnar.

Einnig opið sunnudaginn 13. maí kl. 14:00-17:00 | Aðeins þessi eina helgi.

5. maí 2007

BÆKUR POPULUS TREMULA

Eins og kunnugt er hefur Populus tremula staðið í bókaútgáfu það sem af er árinu.

Gefnar hafa verið út bækur með ljóðum Jóns Laxdal, textum Guðmundar Egils Erlendssonar, textum Kristjáns Péturs Sigurðssonar, ljóðum Guðbrands Siglaugssonar og bók með grafíkmyndum eftir Helga Þorgils Friðjónsson.

Allar bækurnar eru gefnar út í 100 tölusettum og árituðum eintökum.

Enn eru nokkur eintök fáanleg af þessum bókum. áhugasömum er ráðlagt að senda skeyti til Sigurðar Jónssonar á sheidar@simnet.is eða til Aðalsteins Svans Sigfússonar á adalsteinn.svanur@simnet.is.

Hver bók kostar aðeins 1.000 krónur.