31. des. 2007

Gleðilega rest


Enn gengur nýtt ár í garð – og því tökum við fagnandi. Takk fyrir samfylgdina.

2007 er eins og önnur góð ár kvatt með söknuði enda viðburðaríkt og skilaði okkur miklum arði sem talinn er í ánægjustundum og samveru með gestum sem ávallt eru velkomnir.

17. des. 2007

ÁRAMÓTAUPPGJÖR | 29.12.


HLJÓMSVEIT HÚSSINS
Tónleikar 29. 12.
ÁRAMÓTAUPPGJÖR

Laugardagskvöldið 29. desember kl. 22:00 fer fram fjórða áramótauppgjör Populus tremula. Þar mun hljómsveit hússins ásamt góðum gestum gera upp árið með því að leika úrval laga eftir snillingana Cornelis Vreeswijk, Tom Waits, Megas, Nick Cave og Leonard Cohen.

Hljómsveitin verður þannig skipuð: Arnar Tryggvason, Atli Hafþórsson, Baldur Heiðar Sigurðsson, Bárður Heiðar Sigurðsson, Guðmundur Egill Erlendsson, Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Kristján Pétur Sigurðsson.

Húsið verður opnað kl. 21:30 og aðgangur er ókeypis að vanda.
Engar veitingar í boði en malpokar leyfðir.

10. des. 2007

KVÖLDSKEMMTUN | 15. des.



SUÐRIÐ Í NORÐRINU / NORÐRIÐ Í SUÐRINU
STEINUNN ARNBJÖRG STEFÁNSDÓTTIR, MATHURIN MATHAREL & KARINE SEROR
KVÖLDSKEMMTUN

Laugardaginn 15. desember kl. 21:30 flytja tónlistarmennirnir Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Mathurin Matharel ásamt myndlistarkonunni Karine Seror dagskrána Norðrið í Suðrinu og Suðrið í Norðrinu í Populus tremula. Þar flytja listamennirnir, sem allir búa og starfa í París, tónlist, ljóð og dans. Steinunn er gestum Populus að góðu kunn eftir að hafa komið tvívegis fram þar með með Dean Ferrell.
Húsið verður opnað kl. 21:00 – aðgangur ókeypis – malpokar leyfðir

KARINE SEROR | 15. des.




ÞRÆDDIR STÍGAR
Karine Seror
MYNDLISTARSÝNING

Laugardaginn 15. desember kl. 14:00 verður opnuð myndlistarsýningin Þræddir stígar í Populus tremula. Þar sýnir franska myndlistarkonan Karine Seror verk sem hún vann á ferðalagi um fyrrum Júgóslavíu. Þegar líða tók á ferðalagið dró Karine saumadót og ýmislegt fleira upp úr töskunni og skráði ferðasöguna í myndmáli, þræddi stíga.
Einnig opið sunnudaginn 16. desember kl. 14:00 - 17:00. Aðeins þessi eina helgi.

1. des. 2007

HELGI ÞÓRSSON | 6. des.




HELGI ÞÓRSSON Í KRISTNESI
Tveir skuggar - ástarljóð
BÓKMENNTAKVÖLD

Fimmtudaginn 6. desember kl. 21:00 verður haldið bókmenntakvöld í Populus tremula.
Helgi Þórsson í Kritnesi kynnir og flytur ljóðadagskrána TVEIR SKUGGAR – ÁSTARLJÓÐ. Helgi er víðkunnur fyrir ýmiss konar menningar- og listastarfsemi, m.a. tónlistariðkun með Helga og hljóðfæraleikurunum, myndlist og bókmenntir. Helgi hefur einnig gefið út bækurnar Rottusögur og Búgúndí frá Búmbabúmba.

Í tilefni dagsins gefur Populus tremula út lóðabókina Tveir skuggar - ástarljóð eftir Helga.
Það er níunda bókin í útgáfuröð Populus tremula sem hóf gögnu sína snemma á árinu.

Húsið verður opnað klukkan 20:30 – aðgangur ókeypis – malpokar leyfðir.