28. apr. 2007

BRÓDERAÐIR MÁLSÆTTIR | 5.5.07




Laugardaginn 5. maí kl. 14:00 opnar Hanna Hlíf Bjarnadóttir myndlistarsýninguna Bróderaðir málshættir í Populus tremula. Verk Hönnu Hlífar fjalla um konur og viðhorf til þeirra fyrr og nú

Einnig opið sunnudaginn 6. maí kl. 14:00-17:00 | Aðeins þessi eina helgi

JÓNAS SVAFÁR | 3. MAÍ



Fimmtudagskvöldið 3. maí kl. 21:00 verður bókmenntakvöld í Populus Tremula. Fjallað verður um atómskáldið góða Jónas Svafár, lesið úr verkum hans og myndum hans varpað á veggi. Full ástæða er til að skáldið Jónas Svafár falli ekki í gleymskunnar dá, því höfundarverk hans, þótt ekki sé mikið að vöxtum, hefur haft meiri áhrif á íslenska nútímaljóðlist en margan grunar.

Húsið verður opnað kl. 20:30 | Ókeypis aðgangur | Malpokar leyfðir

24. apr. 2007

Kári Páll Óskarsson | 28.4.07


Laugardaginn 28. apríl kl. 21:00 mun Kári Páll Óskarsson kynna og lesa úr nýútkominni ljóðabók sinni, Oubliette, á bókmenntakvöldi í Populus tremula. Auk Kára koma fram tvö önnur ungskáld, þeir Jón Örn Loðmfjörð og Davíð A. Stefánsson.

Húsið verður opnað kl. 20:30 | Ókeypis aðgangur | Malpokar leyfðir

15. apr. 2007

PERFORMATIVE PAINTING | 21.-22.4.




Nelli Penna og Tuomo Nevalainen

Laugardaginn 21. apríl kl. 14:00 opna Nelli Penna og Tuomo Nevalainen, skiptinemar við Myndlistaskólann á Akureyri, sýningu í Populus tremula. Þar bjóða þau gestum að taka þátt í listsköpun sinni og mála. Sýningin fjallar um einstaklinginn, sjálfstæði hans og þátttöku í menningu, listum og málverki.
Sýningin verður einnig opin milli kl. 14:00 og 17:00 sunnudaginn 22. apríl.

11. apr. 2007

. . . að varpa ljósi á Populus tremula | 14.4.



Arna Valsdóttir varpar ljósi á Populus tremula

Laugardaginn 14. apríl kl. 14:00 opnar Arna Valsdóttir myndlistarsýningu í Populus tremula. Sýning Örnu er sjálfstætt framhald af ferilverki þar sem hún vinnur með ljósinnsetningar í rými. Hún vinnur með hvert rými eins og það mætir henni og skoðar hvernig ljósið dregur fram sérkenni þess og eiginleika.
Sýningin verður einnig opin milli kl. 14:00 og 17:00 sunnudaginn 15. apríl.
Aðeins þessi eina helgi.

1. apr. 2007

Páskar í Populus 2007





Mikið verður um dýrðir í Populus tremula um páskana.

HELGI ÞORGILS FRIÐJÓNSSON – MYNDLIST
Helgi Þorgils Friðjónsson, einn virtasti listarmaður þjóðarinnar, mun halda myndlistarsýningu sem hann vann sérstaklega af þessu tilefni. Sýning Helga verður opnuð á skírdag kl. 14:00 og stendur alla páskahelgina frá kl. 14:00 - 17:00.
Af þessu tilefni gefur Populus tremula út bókarkver með verkum eftir Helga Þorgils sem fáanlegt verður á staðnum. Bókin er gefin út í 100 tölustettum og árituðum eintökum.

GUÐBRANDUR SIGLAUGSSON – TRÚBADÚRKVÖLD
Að kvöldi laugardagsins 7. apríl kl. 22:00 mun Guðbrandur Siglaugsson halda tónleika í Populus tremula þar sem hann flytur eigin lög og kvæði. Guðbrandur á að baki langan feril sem skáld og tónlistarmaður og hefur haldið myndlistarsýningar.
Í tilefni af tónleikunum gefur Populus tremula út bók með kvæðum Guðbrands í 100 tölusettum og árituðum eintökum. Bókin verður fáanlega á staðnum. Aðgangur er ókeypis og húsið verður opnað kl. 21:30.

Þetta verða fimmtu trúbadúrtónleikarnir í Populus tremula á þessum vetri og bók Guðbrands sú fimmta sem félagið gefur út síðan um áramót.

AÐALSTEINN SVANUR SIGFÚSSON – AFMÆLISSÝNING Í DEIGLUNNI
Á vegum Gilfélagsins heldur Aðalsteinn Svanur Sigfússon, félagi í Populus tremula, myndlistarsýningu í Deiglunni um páskana. Sýningin verður opnuð laugardaginn 7. apríl kl. 14:00. Sýninguna kallar höfundur „Tíminn snýst eins og jörðin“.
Á sýningunni verða bleksprautuprentaðar ljósmyndir og er þessi sýning haldin í tilefni af því að um páskana eru liðin 25 ár síðan Aðalsteinn opnaði sína fyrstu myndlistarsýningu. Sýningin mun standa til 15. apríl.