26. apr. 2009

TÓNLEIKAR 1. MAÍ | SKAKKAMANAGE

TÓNLEIKAR 1. MAÍ
SKAKKAMANAGE | SICKBIRD | LÉTT Á BÁRUINNI | PRINS PÓLÓ

Föstudagskvöldið 1. MAÍ kl. 22:00 verða haldnir tónleikar í Populus Tremula í samstarfi við KIMI records.

Fram koma hljómsveitirnar Skakkamanage, Létt á bárunni og Prins Póló. Konni Sickbird hitar upp. Plötur og bolir fást á skid og ingenting!

Húsið verður opnað kl. 21:30 | AÐGANGUR ÓKEYPIS | Malpokar leyfðir

25. apr. 2009

Sigurður Heiðar Jónsson heiðraður


Á sumardaginn fyrsta, þann 23.apríl sl., veitti Akureyrarstofa að vanda menningarverðlaun af ýmsu tagi í Ketilhúsinu, úthlutaði starfslaunum til listamanna, veitti húsafriðunarverðlaun o.fl.

Sigurði Heiðari Jónssyni var við það tækifæri veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarstörf.

Um langt árabil hefur Sigurður Jónsson verið áberandi og atkvæðamikill í menningarlífinu á Akureyri. Hann var lengi í framvarðarsveit Gilfélagsins og hafði þar mikil áhrif sem of langt mál yrði að telja upp hér. Á eigin vegum stóð hann margoft fyrir bókmenntadagskrám undir nafninu Heimur ljóðsins, lengst af í samvinnu við Þorstein Gylfason. Síðustu fimm árin hefur Sigurður verið leiðandi afl og lykilmaður í Menningarsmiðjunni Populus tremula, sem sett hefur mark sitt á mannlífið á Akureyri svo um munar og eftir hefur verið tekið.
Á tónlistarsviðinu hefur Sigurður haft umtalsverð áhrif með því að stofna til sérstakra tónlistardagskráa og fá til liðs við sig tónlistarmenn til verksins. Meðal annars með tónlist snillinganna Cornelis Vreeswijk og Tom Waits. Fleiri hafa bæst við og þarna liggur í raun grunnurinn að stofnun Populus tremula.

Sigurður hefur haldið eina myndlistarsýningu í Populus tremula, Öxlar og illþýði, þar sem hann gagnrýndi ofbeldi og heimsku með afar beinskeyttum hætti.
Hann hefur enn fremur sent frá sér ljóðabókina Úr dagbók Rúdólfs Rósengerg sem Populus tremula gaf út 2007.

Allt þetta starf hefur Sigurður unnið af einstakri hógværð og algerri óeigingirni án þess nokkurn tíma að ætla sér önnur laun en gleðina sem felst í góðum félagsskap og að stuðla að fegurra mannlífi.

Það má því ljóst vera að Sigurður er vel að þessari viðurkenningu kominn, að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Til hamingju félagi og vinur!

17. apr. 2009

LÍKAMI SÁLAR | 25.4.LÍKAMI SÁLAR
Harpa Örvarsdóttir sýnir í Populus tremula
25. og 26. apríl 2009

Laugardaginn 25. apríl kl. 14:00 mun Harpa Örvarsdóttir opna myndlistarsýninguna Líkami sálar í Populus Tremula.

Harpa, sem er listmenntuð frá VMA, Emily Carr University og Kwantlen University í Vancouver B.C, sýnir að þessu sinni teikningar af nöktum líkömum sem unnar eru á gler.

Um sýninguna segir Harpa: „Á sýningunni, sem ber heitið „Líkami sálar“, eru teikningar af nöktum líkömum sem unnar eru á gler. Myndirnar eiga að minna fólk á sjálft sig því það er endalaust hægt að bæta línum við teikninguna til að fullkomna hana rétt eins og að vinna í sjálfum sér og verða betri og fallegri manneskja. Við erum líka hverar línu virði þótt við séum ekki í gullinsniðinu.“

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 26. apríl kl. 14:00 - 17:00 | Aðeins þessi eina helgi

14. apr. 2009

MEIRA ROKK EN VANALEGA | 17.4.09
Föstudagskvöldið 17. apríl kl. 21:00 verða haldnir rokktónleikar í Populus Tremula.

Fram koma hljómsveitirnar Endrum, Chino, Iblis og Provoke. Hér gefst hressandi tækifæri til að taka púlsinn á því sem ungir rokkarar á Akureyri eru að fást við – rokkarar framtíðarinnar. Að þessu sinni verður jafnvel MEIRA ROKK EN VANALEGA!

Húsið verður opnað kl. 20:30 | Aðgangur ókeypis | Malpokar ekki leyfðir

6. apr. 2009

PÁSKARNIR 2009 | 11.-13. APRÍL


PÁSKARNIR 2009 | 11.-13. APRÍL

RAFVIRKI 1 2 3
Opnun laugardaginn 11. apríl kl.14:00
BIRGIR SIGURÐSSON

Laugardaginn 11. apríl kl. 14:00 mun Birgir Sigurðsson opna myndlistarsýninguna RAFVIRKI 1 2 3 í Populus Tremula.

Með sýningunni tengir rafvirkinn og myndlistarmaðurnn fortíð og nútíð. Efniviðurinn er fenginn úr ýmsum áttum og mörgum listformum blandað saman. Dansverk, ljósskúlptúrar, innsetning, reglugerðarupplestur og ljóðaupplestur. Dansgjörningur á opnun.

Sýningin verður einnig opin á páskadag og annan í páskum kl. 14:00-17:00

---

TÓNLEIKAR
Mánudagskvöldið 13. apríl kl. 21:00
JOHAN PIRIBAUER

Johan Piribauer söngvari, lagahöfundur og alþýðurokkari frá Lapplandi heldur tónleika í Populus Tremula að kvöldi annars í páskum. Ásamt honum koma fram Gabriel Liljenström fiðluleikari og söngkonan Maud Rombe. Johan syngur á sænsku en tónlist hans og textar sækja innblástur í menningu og náttúru Lapplands.

Johan hefur gefið úr fimm hljómplötur síðan 1995 og hefur flutt tónlist sína víða um heim við góðan orðstýr og frábæra dóma.
Auk tónleikanna í Populus koma þau fram á Aldrei fór ég suður á Ísafirði og í Kaffi Hljómalind í Reykjavík.

Húsið verður opnað kl. 20:30 | Aðgangur ókeypis | Malpokar leyfðir

AF ÓVIÐRÁÐANLEGUM ÁSTÆÐUM FÉLLU ÞESSIR TÓNLEIKAR NIÐUR.