25. apr. 2009

Sigurður Heiðar Jónsson heiðraður






Á sumardaginn fyrsta, þann 23.apríl sl., veitti Akureyrarstofa að vanda menningarverðlaun af ýmsu tagi í Ketilhúsinu, úthlutaði starfslaunum til listamanna, veitti húsafriðunarverðlaun o.fl.

Sigurði Heiðari Jónssyni var við það tækifæri veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarstörf.

Um langt árabil hefur Sigurður Jónsson verið áberandi og atkvæðamikill í menningarlífinu á Akureyri. Hann var lengi í framvarðarsveit Gilfélagsins og hafði þar mikil áhrif sem of langt mál yrði að telja upp hér. Á eigin vegum stóð hann margoft fyrir bókmenntadagskrám undir nafninu Heimur ljóðsins, lengst af í samvinnu við Þorstein Gylfason. Síðustu fimm árin hefur Sigurður verið leiðandi afl og lykilmaður í Menningarsmiðjunni Populus tremula, sem sett hefur mark sitt á mannlífið á Akureyri svo um munar og eftir hefur verið tekið.
Á tónlistarsviðinu hefur Sigurður haft umtalsverð áhrif með því að stofna til sérstakra tónlistardagskráa og fá til liðs við sig tónlistarmenn til verksins. Meðal annars með tónlist snillinganna Cornelis Vreeswijk og Tom Waits. Fleiri hafa bæst við og þarna liggur í raun grunnurinn að stofnun Populus tremula.

Sigurður hefur haldið eina myndlistarsýningu í Populus tremula, Öxlar og illþýði, þar sem hann gagnrýndi ofbeldi og heimsku með afar beinskeyttum hætti.
Hann hefur enn fremur sent frá sér ljóðabókina Úr dagbók Rúdólfs Rósengerg sem Populus tremula gaf út 2007.

Allt þetta starf hefur Sigurður unnið af einstakri hógværð og algerri óeigingirni án þess nokkurn tíma að ætla sér önnur laun en gleðina sem felst í góðum félagsskap og að stuðla að fegurra mannlífi.

Það má því ljóst vera að Sigurður er vel að þessari viðurkenningu kominn, að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Til hamingju félagi og vinur!