29. okt. 2006

Hofmannleg ást miðaldaskálda




Ljóð frá Márum Andalúsíu og trúbadúrum Frakklands og Íslands.

Laugardaginn 4. nóvember kl. 21:00 verður haldið bókmenntakvöld í Populus tremula. Miðaldaljóð verða lesin, sum sungin og lítillega spjallað um samhengi þeirra. Flest ljóðanna eru þýdd af Daníel Á. Daníelssyni.
Umsjón með dagskránni hefur Þórarinn Hjartarson og flytur hana ásamt félögum. Aðgangur ókeypis.

23. okt. 2006

Populus Trichocarpa á netinu


Kristján Pétur Sigurðsson meðlimur Populus Tremula samsteypunnar hefur opnað sýningu á netinu, sem vara mun í eitt ár eða svo. Verkefnið er að Kristján Pétur birtir eina mynd á viku af öspum tveim í bakgarði nágranna hans, einmitt öspunum sem voru myndefni á sýningu Kristjáns Péturs í apríl síðastliðnum : “Populus Trichocarpa í Populus Tremula”. Maðurinn er með þessi tré á heilanum. Við munum á síðunni http://poptricho.blogspot.com/ fylgjast með þessum myndarlegu Populuspiltum frá því þeir eru núna laufi rúnir þangað til þeir standa aftur berrassaðir að ári. Undirtitill þessarar sýningar er því: FRÁ NEKT TIL NEKTAR.”

16. okt. 2006

Segðu það engum | 21.10.



Laugardaginn 21. október kl. 14:00 verður opnuð ljósmyndasýningin Segðu það engum í Populus tremula. Þar sýnir Kári Fannar Lárusson ljósmyndir sem hann tók í Nicuaragua sl. vor. Sýningin er styrkt af FSHA og Háskólanum á Akureyri.
Einnig opið sunnudaginn 22.10. kl. 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.

8. okt. 2006

Teikningar Óla G. | 14. og 15. okt.





Laugardaginn 14. október kl. 14:00 verður opnuð myndlistarsýningin Barcelona í Populus tremula. Þar sýnir Óli G. Jóhannsson á sér nýjar hliðar og flíkar að þessu sinni teikningum. Einnig opið sunnudaginn 15.10. kl. 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.

1. okt. 2006

Minning um áfangastað | 6. október





Föstudagskvöldið 6. október klukkan 21:00 verður haldið bókmennta- og trúbadúrkvöld í Populus tremula helgað Aðalsteini Svani Sigfússyni. Lesið verður úr kvæðum skáldsins sem einnig mun stíga á svið sem trúbadúr og flytja eigin lög og kvæði. Dagskráin ber yfirskriftina Minning um áfangastað.

Aðalsteinn Svanur hefur stundað myndlist í aldarfjórðung og haldið fjölda sýninga. Árið 1998 kom út hjá Máli og menningu ljóðabók hans, Kveikisteinar. Þetta er í fyrsta sinn sem Aðalsteinn er kynntur með formlegum hætti sem trúbadúr.

Aðgangur er ókeypis eins og ávallt í Populus tremula. Malpokar leyfðir.