26. maí 2014

MYNDRA heldur útgáfutónleika


Föstudaginn 30. maí kl. 21.00 mun kanadísk/íslenska hljómsveitin Myndra halda tónleika í Populus tremula á Akureyri. 

Sveitin er á ferð um landið að kynna sína fyrstu plötu, Songs From Your Collarbone, sem tekin var upp í smábænum Rimouski í frönskumælandi Kanada. Kynna má sér tónlist Myndru á myndra.bandcamp.com. 

Einnig mun trúbadorinn Kristján Pétur Sigurðsson koma fram á tónleikunum.

Tekið verður úr lás kl. 20.30 | Aðgangur ókeypis | Malpokar leyfðir

19. maí 2014

Joris Rademaker sýnir 24. og 25. maí


Innsetning um eitthvað sem minnir á, sem minnir á. sem …

Joris Rademaker sýnir í Populus tremula 24. og 25. maí 2014


Hugmyndir eru eins og farfuglar sem ferðast á milli mismunandi hluta. Sýningin fjallar m.a. um hvernig lítill hlutur getur sett af stað skriðu hugmynda.

Fyrir nokkrum árum var ég að setja upp sýningu í Populus tremula og þarna voru ennþá spýtur hátt upp á veggnum til að setja öngla á til að hengja myndverk á. Þessar spýtur trufluðu innsetninguna mína og ég fékk leyfi til að fjarlægja þær en það gekk brösuglega. Stórar málningaklessur flögnuðu af. Þessar flögur drógu athygli mína til sín.

Þar voru marglitar málningarumferðir orðnar sýnilegar og gerðu sýningarsögu Populus sýnilega á einhvern hátt. Flögurnar voru í laginu eins og eyjar. Ég gat ekki hent þessu því þarna var kominn efniviður fyrir nýja sýningu.

Nokkrum árum seinna fór ég að safna fjöðrum og núna á öskudaginn keypti ég nokkra flotta kúluhatta (tákn ensku yfirstéttarinnar).

Dag nokkurn voru fjaðrirnar komnar upp á kúluhattinn eins og farfuglar. Þarna gerðist eitthvað skrítið, eitthvað nýtt en samt kunnugt. Eitthvert þrívíddartákn sem tengdist Englandi, nýlendustefnu heimsins, ferðalögum og eyjaklösum. Út frá þessum skúlptúrum þróaðist sýningin áfram.

Þetta er fjórða sýningin mín í Populus Tremula og vil ég þakka stjórn þess fyrir sýningartækifærin. Rýmið er skemmtilegt og ýtir undir tilraunir til að búa til sér-sýningar fyrir þetta rými.

Joris Rademaker

12. maí 2014

KJÓLANDI – fjórar listakonur sýna


Laugardaginn 17. maí kl. 14.00 verður opnuð myndlistarsýningin Kjólandi í Populus tremula. 


Þar leiða saman kjóla sína listakonurnar Brynhildur Kristinsdóttir, Dagrún Matthíasdóttir, Jónborg Sigurðardóttir og Þóra Karlsdóttir.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 18. maí frá 14.00-17.00. 
Aðeins þessi eina helgi.

5. maí 2014

KAÞARSIS víxlverkun

Laugardaginn 10. maí kl. 18.00 til miðnættis opna tíu listamenn sýningu í Populus tremula og túlka verk hvers annars og útfæra í hinum ýmsu miðlum. 

Dj Delightfully Delicious þeytir skífum fram eftir kvöldi. 

Listamennirnir sem sýna eru: Agnes Ársælsdóttir, Axel Flóvent, Borgný, Dagný Lilja, Halla Lilja, Karólína Rós, Kristófer Páll, Lena Birgisdóttir, Úlfur og Þórður Indriði.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 11. maí frá 14.00-17.00.
Aðeins þessi eina helgi.