Joris Rademaker sýnir 24. og 25. maí
Innsetning um eitthvað sem minnir á, sem minnir á. sem …
Joris Rademaker sýnir í Populus tremula 24. og 25. maí 2014
Hugmyndir eru eins og farfuglar sem ferðast á milli mismunandi hluta. Sýningin fjallar m.a. um hvernig lítill hlutur getur sett af stað skriðu hugmynda.
Fyrir nokkrum árum var ég að setja upp sýningu í Populus tremula og þarna voru ennþá spýtur hátt upp á veggnum til að setja öngla á til að hengja myndverk á. Þessar spýtur trufluðu innsetninguna mína og ég fékk leyfi til að fjarlægja þær en það gekk brösuglega. Stórar málningaklessur flögnuðu af. Þessar flögur drógu athygli mína til sín.
Þar voru marglitar málningarumferðir orðnar sýnilegar og gerðu sýningarsögu Populus sýnilega á einhvern hátt. Flögurnar voru í laginu eins og eyjar. Ég gat ekki hent þessu því þarna var kominn efniviður fyrir nýja sýningu.
Nokkrum árum seinna fór ég að safna fjöðrum og núna á öskudaginn keypti ég nokkra flotta kúluhatta (tákn ensku yfirstéttarinnar).
Dag nokkurn voru fjaðrirnar komnar upp á kúluhattinn eins og farfuglar. Þarna gerðist eitthvað skrítið, eitthvað nýtt en samt kunnugt. Eitthvert þrívíddartákn sem tengdist Englandi, nýlendustefnu heimsins, ferðalögum og eyjaklösum. Út frá þessum skúlptúrum þróaðist sýningin áfram.
Þetta er fjórða sýningin mín í Populus Tremula og vil ég þakka stjórn þess fyrir sýningartækifærin. Rýmið er skemmtilegt og ýtir undir tilraunir til að búa til sér-sýningar fyrir þetta rými.
Joris Rademaker
<< Home