29. nóv. 2010

JÓLABAZAR HELGA OG BEATE frá 11. des.












HELGA OG BEATE BÚÐ

Hinn árlegi Jólabazar Helga og Beate verður haldinn í Populus tremula allar helgar fram að jólum og auk þess síðustu dagana fyrir jól.

Allskonar drasl og druslur, meira og minna heimsmíðað og yfirþyrmandi þjóðleg hönnnun. Þá verða þrælíslensk jólatré og greinar til sölu frá 11. desember til jóla. Auk þess munu valinkunnir gestir bjóða varning sinn.

Helgi og Beate deila rýminu með öðrum listamönnum eftir atvkum. Sjáumst!

OPIÐ KL. 13:00-18:00

Ljósmyndir af bazarnum eru birtar með góðfúslegu leyfi Daníels Starrasonar og Kristjáns Péturs Sigurðssonar.

22. nóv. 2010

RÓSA SIGRÚN SÝNIR | 27.-28. nóv.







Laugardaginn 27. nóvember kl. 14:00 opnar Rósa Sigrún Jónsdóttir myndlistarsýningu í Populus Tremula.
Rósa vinnur í ýmsa miðla en textíllinn er henni nærtækur og svo er einnig að þessu sinni.

Hvað vitum við í rauninni um fólk? Við drögum ýmsar ályktanir, meðal annars af samhenginu, en ef við raunverulega horfum á manneskjuna þá kemur efinn . . . er þessi kona sofandi eða er hún kannski dáin?

Rósa Sigrún hefur dvalið í Gestastofu Gilfélagsins nú í nóvember.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 28. nóvember. kl 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.

15. nóv. 2010

HÁSI KISI – LJÓÐAKVÖLD 19. nóv.










Föstudaginn 19. nóvember kl.21:00 halda HÁSI KISI OG FÉLAGAR ljóðakvöld í Pop­ulus Tremula.

Hási Kisi er ljóðaklúbbur sem starfað hefur á Fljótsdalshéraði frá árinu 2008. Meðlimir Hása Kisa eru hver öðrum allt í senn aðdáendur, aðstoðarmenn og harðir og misk­unnar­lausir gagnrýnendur. Hópurinn hefur staðið fyrir viðburðum og vinnur að útgáfumálum en er fyrst og fremst sjálfshjálparhópur taugaveiklaðra ljóðskálda sem með góðu eða illu ætla sér að láta fólk hlusta á ljóðin sín.

Hási Kisi eru:
Ásgrímur Ingi Arngrímsson
Hrafnkell Lárusson
Ingunn Snædal
Stefán Bogi Sveinsson
 
Vinir Hása Kisa eru:
Kristján Ketill Stefánsson
Urður Snædal
 
Sérstakur gestur:
Gréta Kristín Ómarsdóttir

Húsið verður opnað kl. 20:30 | Aðgangur ókeypis | Malpokar leyfðir

8. nóv. 2010

RÖGNVALDUR GÁFAÐI SÝNIR 13.-14. nóv.







RÖGNVALDUR GÁFAÐI SÝNIR 13.-14. nóv.

Laugardaginn 13. nóvember kl. 14:00 opnar Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson (alias Rögnvaldur gáfaði ) myndlistalistasýningu í Populus Tremula.

Rögnvaldur, sem er landsþekktur tónlistarmaður, sýnir hér á sér splúnkunýja hlið sem málari með akrýl á striga.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 14.11. kl 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.