28. okt. 2009

ORKUVER Í BÆJARLÆKNUM

Um þessar mundir fagnar fimm ára afmæli sínu merkilegt fyrirbæri í mannlífinu á Akureyri – Menningarsmiðjan Populus tremula (P.t.). Í starfsemi af þessum toga er það talsverður aldur og því ekki úr vegi að líta um öxl og segja í stuttu máli frá þessu fyrirbæri, tilurð þess og starfsemi.

Kveikjan að stofnun félagsins var sú að hljómsveit vantaði æfingapláss. Úr varð að hljómsveitin, skipuð 7 mönnum sem fengust flestir við skáldskap og myndlist auk tónlistarinnar, gekk til liðs við myndlistarmenn sem ráku vinnustofu og sýningarpláss í Gilinu. Haustið 2004 var stofnað formlegt félag um rekstur menningarmiðstöðvar í vinnustofunni og hún tekin á leigu. Stofnfélagar voru níu og sjö þeirra eru enn virkir innan félagsins. Nýir félagar hafa bæst í hópinn og aðrir horfið til annarra landa eða landshluta. Heilinn að baki félaginu og forgöngumaður er Papa Populus, Sigurður Heiðar Jónsson, sem var gjaldkeri þess og andlit út á við fyrstu fjögur árin.

Í þriðju grein félagssamþykkta P.t. segir orðrétt: „Starfsemi félagsins skal byggjast á hugsjónastarfi án efnahagslegs ávinnings og þjóna því markmiði fremst, að efla lifandi menningarlíf í umhverfi sínu. Félagið má ekki hafa tekjur af starfsemi sinni...“

Þarna kemur strax fram eitt helsta sérkenni þessarar menningarsmiðju – félagið tekur aldrei gjald af neinum, hvorki listamönnum né gestum, og borgar aldrei neinum neitt sem tengist viðburðum í Populus termula. Vissulega fylgir þessum rekstri umtalsverður kostnaður, og ber þar hæst húsaleiga, sem framan af var greidd af félagsmönnum úr eigin vasa. Með vaxandi starfi og velmegun í samfélaginu, sem nú má helst ekki nefna á nafn, gengu til liðs við P.t. styrktaraðilar sem gerðu það mögulegt að halda úti öflugu starfi án þess að félagsmenn þyrftu að bera af því umtalsverðan persónulegan kostnað. Fyrir það eru félagsmenn þakklátir, enda væri Populus tremula ekki það sem það er nema fyrir tilstuðlan Ásprents Stíls, Saga Capital, Norðurorku, Rub 23 og Akureyrarbæjar. Eftir sem áður byggir Populus allt sitt á þrotlausu sjálfboðastarfi félagsmanna allra.

Tónlist hefur frá upphafi verið ríkjandi þáttur í starfi Populus tremula en strax á fyrsta starfsári félagsins var einnig farið að standa fyrir myndlistarsýningum og bókmenntakvöldum. Leiksýningar hafa verið fluttar í menningarsmiðjunni og raunar hafa flestar listgreinar fengið þar inni á þessum fimm árum. Viðburðir á þessu fimm ára tímabili skipta hundruðum og fjöldi gesta mælist í þúsundum. Ávallt eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis, sama upp á hvað er boðið.

Frá upphafi hefur það verið stefna P.t. að taka vel á móti ungum listamönnum og gefa þeim kost á að koma verkum sínum á framfæri. Listnemar og ungskáld hafa fengið inni í Populus tremula á sömu forsendum og víðkunnir listamenn hvaðanæva að.

Í árbyrjun 2007 hóf Populus tremula bókaútgáfu með því að gefa úr litlar bækur í takmörkuðu upplagi. Bækur á vegum P.t. eru nú orðnar 19 talsins; ljóðabækur, myndlistarverk, tónlist og prósi eftir nánast jafnmarga höfunda. Þar á meðal eru verk landsþekktra listamanna í bland við fyrstu verk ungra skálda og listamanna.

Populus tremula er eitt af mörgum skilgetnum afkvæmum Gilfélagsins, sem ásamt Listasafninu á Akureyri ruddi jarðveginn fyrir grasrótarstarf í menningarlífinu á Akureyri. Öll þessi sjálfsprottnu gallerí og handverkshús, ásamt fyrrnefndum aðilum, Menningarmiðstöðinni í Listagili og þeim lifandi arfi sem Amtsbókasafnið, skáldahúsin og Minjasafnið standa fyrir, hafa virkjað þann listræna kraft sem býr í fólkinu í bænum – eru orkuver í bæjarlæknum.

Og starfinu í Populus tremula mun vonandi áfram haldið meðan túrbínan í Gilinu snýst.

22. okt. 2009

OPSTRAAT & RESTJES | 24. okt.






OPSTRAAT & RESTJES
Japonisma

GEORG, VIKTOR OG IVAR HOLLANDERS

Laugardaginn 24. október kl. 14:00 verður opnuð myndlistarsýningin OPSTRAAT & RESTJES, Japonisma í Populus Tremula. Það eru feðgarnir Viktor, Ivar og Georg Hollanders sem sýna saman. Sýningin fjallar um endurnýtingu eða gjörnýtingu og kynnir nýja hugmyndafræði eða “public trademark”, Opstraat & Restjes.

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 25. október kl. 14:00 - 17:00

13. okt. 2009

KRISTJÁN PÉTUR SÝNIR Í HAFNARFIRÐI

Þagnarangar úr Brandenburgarkonsert nr. 5 eftir J.S.Bach




Laugardaginn 17.10. kl. 14-17 opnar Kristján Pétur Sigurðsson sýninguna „Þagnarangar úr Brandenburgarkonsert nr. 5 eftir J.S.Bach“ í Gullsmíða og Skartgripaverslun Fríðu Strandgötu 43 í Hafnarfirði. Verkin eru unnin úr krossviði, kopar og maghóní.

Sýningin verður síðan opin í þrjár vikur á opnunartíma verslunarinnar.
Það væri mér sönn ánægja að þú og þínir litu inn við opnun.