26. sep. 2011

MELLI – ljósmyndasýning 1.-2. október








MELLI – ljósmyndasýning í Populus tremula 1.-2. október

Laugardaginn 1. október kl. 14.00 opnar Sigurður Gunnarsson ljósmyndasýninguna Melli í Populus tremula á Akureyri.

Vorið 2006 fór Hrafnkell Brynjarsson (Melli) í lyfjameðferð eftir að hafa greinst með krabbamein í eista. Ljósmyndarinn Sigurður Gunnarsson fylgdi honum í gegnum meðferðina. Á sýningunni má sjá myndir sem skrá daglegt líf Mella meðan á meðferð stóð.

Myndirnar varpa ljósi á hvernig líkaminn breytist við slíka þolraun og eru auk þess brotakennd sýn á hið daglega líf sjúklingsins. Líkamsstellingar og athafnir Mella á meðan meðferðinni stóð geta virst sláandi, en þó fullar öryggis; óttinn við að bíða lægri hlut í glímunni við illvígan sjúkdóm er ekki til staðar. Heldur horfir hann beint í myndavélina fullur öryggis og yfirvegunar og biður ekki um samúð eða vorkun.

Sigurður Gunnarsson f. 1978 útskrifaðist úr Ljósmyndaskóla Sissu árið 2006. Næstu ár eftir vann hann sem aðstoðarmaður ýmissa ljósmyndara og síðar sem sjálfstættstarfandi blaðaljósmyndari. Undanfarið hefur Sigurður unnið að sínum eigin verkefnum og haldið sýningar heima og erlendis. Melli er 5. einkasýning hans.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 2. október kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.

8. sep. 2011

LJÓÐAHÁTÍÐ 23. og 24. september














Síðustu helgina í september verður haldin Ljóðahátíð í Eyjafirði.
Aðstandendur hennar eru Verksmiðjan á Hjalteyri, Populus tremula og Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Hin árlega Ljóðaganga í Eyfirskum skógi verður að þessu sinni hluti hátíðarinnar og nú haldin í Grundarskógi í Eyjafirði.

Dagskrá verður þríþætt eins og fram kemur hér að neðan. Hópur góðskálda heimsækir Eyjafjörð og les ljóð sín fyrir heimamenn og gesti.

Fram munu koma m.a. eftirtalin skáld:

Guðbrandur Siglaugsson
Kristín Svava Tómasdóttir
Anton Helgi Jónsson
Bjarni Gunnarsson
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
Ísak Harðarson

Fyrst verður ljóðakvöld í Verksmðjunni á Halteyri kl. 21.00 föstudaginn 23. sept.

Síðan Ljóðaganga Grundarskógi í Eyjafirði kl. 14.00 laugardaginn 24. sept.

Að lokum ljóðakvöld í Populus tremula sama kvöld kl. 21.00.

Aðgangur verður ókeypis og öllum heimill. Malpokar leyfðir.

Ljóðahátíðin er styrkt sérstaklega af Menningarráði Eyþings, Uppheimum og Amtsbókasafninu á Akureyri og Akureyrarstofu.