11. jan. 2010

ÞÓRGNÝR DÝRFJÖRÐ – ÞREIFANDI – 16.-17. jan.






ÞÓRGNÝR DÝRFJÖRÐ – ÞREIFANDI – 16.-17. jan.

Laugardaginn 16. janúar kl. 14.00 opnar Þórgnýr Dýrfjörð áhugaljósmyndari sýninguna Þreifandi í Populus Tremula. Þar sýnir hann ljósmyndir teknar á síðustu tveimur árum og eru viðfangsefnin af ýmsum toga, portrett, bæjarmyndir og landslag. Sýningin er einnig opin sunnudaginn 17. janúar kl. 14-17.

Þórgnýr hefur verið hugfanginn af ljósmyndun allt frá barnæsku og lagði sig sérstaklega eftir henni á unglingsárum, eignaðist góða myndavél og fékkst við allan ferilinn frá myndatöku til framköllunar og stækkunar í myrkraherbergi. Ljósmyndadellan rénaði svo nokkuð um árabil þó vélin væri aldrei langt undan. Á síðustu árum hefur hann nýtt sér stafræna ljósmyndatækni og í gegnum hana endurnýjað kynnin við sitt gamla áhugamál. Þórgnýr beinir linsunni að fjölbreytilegum viðfangsefnum, gerir tilraunir með tækni, sjónarhorn, myndbyggingu og myndvinnslu. Sýningin í Populus Tremula er sú fyrsta sem Þórgnýr heldur um ævina þó nokkrar ljósmyndir eftir hann hafi birst á opinberum vettvangi á vefsíðum og í dagblöðum.