Populus 10 ára – minningartónleikar um Sigurð Heiðar Jónsson haldnir í Hofi 25. október
Laugardaginn 25. október 2014 verða haldnir tónleikar í menningarhúsinu Hofi á Akureyri á vegum Populus tremula sem starfað hefur í tíu ár samfleytt og sett svip sinn á menningarlífið með afgerandi hætti. Tónleikarnir eru haldnir til minningar um aðalhvatamann og leiðtoga Populus tremula, Sigurð Heiðar Jónsson.
Á tónleikunum í Hofi mun Populus-hljómsveitin einskorða sig við lög eftir þrjá óumdeilda snillinga sem hún hefur sérhæft sig í: Tom Waits, Nick Cave og Cornelis Vreeswijk. Auk fastra meðlima hljómsveitarinnar munu koma fram tveir víðkunnir gestasöngvarar – þau Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson.
Hljómsveitin sjálf – Húsband Populus tremula – er svo skipuð:
Kristján Pétur Sigurðsson, söngur; Arna Valsdóttir, söngur; Arnar Tryggason, hljómborð og harmónika; Bárður Sigurðsson, gítar og banjó; Guðmundur Egill Erlendsson, gítar; Hjálmar Stefán Brynjólfsson, bassi o.fl.; Orri Einarsson, trommur; Fleiri munu stíga á svið.
Hljómsveitin hefur í áranna rás haldið fjölmarga tónleika og víða við góðan orðstír og fögnuð og fengist við verk fleiri höfunda en hér hafa verið nefndir. Má þar nefna Megas og Leonard Cohen.
Menningarsmiðjan Populus tremula var stofnuð haustið 2004 og fékk þá til umráða húsnæði í kjallara Listasafnsins á Akureyri og hefur haft þar aðsetur síðan. Þótt tónlist hafi verið límið í starfseminni var frá upphafi mörkuð sú stefna að halda úti alhliða menningarsmiðju, enda plássið kjörið til hvers konar listviðburða. Nú, að tíu árum liðnum frá stofnun, hafa verið haldnir rétt um 300 list- og menningarviðburðir í kjallaranum góða og þar er af mörgu að taka:
Myndlist, tónleikar af ýmsum toga, bókmenntaviðburðir fjölmargir, leiksýningar og eiginlega allt sem nöfnum tjáir að nefna á sviði lista.
Aldrei hefur í allan þennan tíma verið tekið gjald af neinum; þ.e.a.s.: ókeypis hefur verið inn á alla viðburði frá upphafi og listafólk hefur aldrei þurft að greiða fyrir að fá að koma þar fram. Fjöldinn allur af víðkunnu og virtu listafólki hefur komið þar fram með einum eða öðrum hætti og jafnframt hafa fjölmargir ungir listamenn á öllum aldri stigið þar sín fyrstu skref. Populus tremula hefur gefið út rúmlega 20 bækur af ýmsum toga, bæði eftir þekkta listamenn og nýliða. Allir hafa átt jöfn tækifæri í Populus þennan áratug. Einnig var gefin út hljómplata með „húsbandinu“.
Frá upphafi hafa félagsmenn borið jafna ábyrgð á starfseminni og kostuðu hana fyrstu árin úr eigin vasa. En án traustra bakhjarla hefði þetta aldrei verið hægt. Því ber sérstaklega að þakka Ásprenti Stíl, Menningarráði Eyþings og Akureyrarstofu fyrir veittan stuðning. Fjölmargir aðrir hafa lagt starfinu lið með einum eða öðrum hætti.
Í árslok 2014 verður starfsemi Populus tremula hætt og félagið lagt niður, enda komið að kynslóðaskiptum á þessum vettvangi.
Sigurður Heiðar Jónsson, sem tónleikarnir eru haldnir til minningar um, var einlægur unnandi fagurra lista og húmanisti fram í fingurgóma. Uppruna hljómsveitarinnar má rekja til þess að hann safnaði saman góðu fólki til að búa til tónlistardagskrá með lögum Cornelis Vreeswijk árið 2002. Og lét ekki þar staðar numið heldur varð hvatamaður að stofnun og leiðtogi Populus tremula, allt frá fyrstu hugmynd og uns hann varð að láta undan fyrir MND-sjúkdómnum snemmsumars 2011, langt fyrir aldur fram. Sigurður Heiðar lifði og dó með reisn. Þannig vilja aðstandendur að Populus tremula sé einnig minnst. Lifi minning Papa Populus!
Miðasala á: www.menningarhus.is
<< Home